Við erum ekki spenaþjóð

Aðalumræðuefnið á kaffistofunni í dag var hvernig alþingismenn eru enganvegin í takt við hinn almenna launþega í landinu. Við ræddum þá hugmynd að alþingismenn prófi tímabundið á eigin skinni hvernig það er að lifa á bótum. Komi sér sjálfir til og frá vinnu, engin fríðindi sem hinn almenni launþegi hefur ekki.

Síðan geta þeir tekið ákvörðun um hvort það eigi að skerða bætur hjá 18 - 24 ára. Held það væri svolítið annað hljóð í skrokknum þá. Fyrir utan það hvað ríkið myndi græða á því að vera ekki að borga þessi svimandi háu laun, þó ekki sé nema 3 mánuði. Alþingismenn eru álíka firrtir og Maria Antoinette þegar þjóðin átti ekki brauð - "af hverju borða þau þá ekki bara kökur?"

Ekki gleyma því að þeir sem lifa á bótum fara að meðaltali oftar til læknis, þó hver ferð sé niðurgreidd þegar búið er að ná upp í afsláttarkort þá þarf samt að borga í hver skipti. Segjum sem svo að par um tvítugt með lítið barn hafi bæði misst vinnuna. Skerrtar bætur þýða að þau hafa ekki ofan í sig og á, hvað þá fjármagn til að sinna grunnþörfum ungabarns. Foreldrar sem áður gátu hlaupið undir bagga eru í stökustu vandræðum með að halda sjálf velli. Hvaða framtíð bíður þeirra?

Sér ríkisstjórnin ekki að við erum farin að tína tölurnar af götóttu skyrtunum, breyta gömlum fötum og hverfa til naumhyggjunnar þar sem við erum sjálfum okkur nóg. Tímabundið ástand segir Steingrímur. Á þjóðin að ýta á undan sér stærri og stærri skuldahala af því að fólk á ekki mat út mánuðinn? Hver græðir á því? Hvað veit jarðfræðingur um það hvort þetta sé tímabundið ástand?

Þetta er ósköp einfalt dæmi um framboð og eftirspurn. Ef enginn á pening til að kaupa vörurnar þá fara fleiri á atvinnuleysisskrá. Íslendingar eru ekki þjóð sem er tamt að sitja og sjúga af spena ríkissins. Við erum afkomendur víkinga, sjálfstæð í hugsun og finnum leið út úr þeim verkefnum sem á vegi okkar verða.URRR OG ÁFRAM NÚ!


Kynlaust fiðurfé á himnum

Það er reyndar svolítið síðan þessi umræða átti sér stað á kaffistofunni, löngu áður en þetta blogg var stofnað, en mig langar til að fá þig til að brosa og vona að þú smitir aðra.

Nokkrir einstaklingar voru að velta fyrir sér hvað yrði um okkur þegar við kveðjum þetta líf.

Sá fyrsti segir: Hvernig ætli það verði þegar við deyjum? Verður maður kynlaus uppi á himnum?

næsti spyr til baka: Kynlaust fiðurfé?

kona í hópnum stenst ekki mátið: Með fuglaflensu?

Þá skellur í næsta: Nei, þá er nú betra að fara til helvítis og ríða eins og andskotinn.


Það sem ég veit er að ég veit ekki neitt

Tveir einstaklingar höfðu skoðanaskipti á kaffistofunni í dag og þetta voru lokaorðin. Síðustu orð Sókratesar. Áður en hann drakk eiturbikarinn sem hann var dæmdur til að drekka fyrir að spilla alþýðunni (í raun fyrir að velta hlutunum fyrir sér og segja hluti sem voru ekki þægilegir fyrir stjórnendur ríkisins). Þessi setning er vel við hæfi í dag.

Þó allt sé á tjá og tundri þá lagast ástandið ekkert við að æsa sig og búa til úlfalda úr mýflugu. Ekki gleyma að slaka á og skoða staðreyndirnar með opnum huga. Ég neita að trúa því að ríkisstjórnin sé vísvitandi að leiða íslendinga í glötun. Ég hef samúð með þeim sem eru að reyna sitt besta til að leiðrétta þau glappaskot sem urðu til þess að svo fór sem fór, en þarf að vaða í gegnum skítinn sem kastað er í alla sem málin varða.

Margir sjá samsæri í hverju horni og þó að það sé mikilvægt að hafa augun opin fyrir hvers kyns spillingu þá má það ekki stjórna lífi okkar. Sumir eru einfaldlega allt of æstir til að hægt sé að rökræða við þá. Ekki loka augunum fyrir því að flestir í stjórnkerfinu okkar hafa einlægan áhuga á að gera það sem er Íslandi og Íslendingum fyrir bestu.

Með von um farsæla lausn og að sem flest sjónarmið nái til þeirra sem taka mikilvægar ákvarðanir.


Auglýsi eftir stjórnmálaflokki fyrir þá sem minna mega sín í næstu kosningum

Hugguleg kona á áttræðisaldri kom við á kaffistofunni fyrir skemmstu og sagði farir sínar ekki sléttar. Málið er að þessi kona skuldar Tryggingastofnun á sjöunda hundruð þúsund krónur vegna laga sem sett voru til að hægt yrði að skuldsetja hana aftur í tímann. Samkvæmt lögunum má fara 3 ár aftur í tímann, en hjá þessari tilteknu konu er farið ofan í saumana á síðustu 15 árum.

Er það misskilningur, eða eiga lög ekki að gilda frá þeim degi sem þau voru sett? Allt sem var gert fyrir þann tíma telst ekki með. Af hverju er verið að traðka á þeim sem síst mega sín? Aldraðir og öryrkjar hafa fullt erindi á Alþingi. Þó svo að einstaklingarnir í þessum röðum hafi mismunandi skoðanir er full þörf á því að þessi flokkur komi fram, rétt eins og kvennalistinn forðum daga. Þegar hinir flokkarnir fóru að setja konur í forystusæti hafði kvennalistinn náð takmarki sínu og lagði upp laupana.

Hér með auglýsi ég eftir sterkum röddum úr hópi aldraðra og öryrkja. Ég hvet ykkur til að koma með skýra stefnumótum á því sem þarf að gera. Við erum aðeins einu slysi frá því að verða öryrkjar, eitt augnablik er allt sem þarf. Flest viljum við verða gömul og njóta ellinnar. Þetta fólk á ekki að lifa við hungurmörk og það má heldur ekki halda vinnugetu þeirra niðri eins og nú er gert. Ef öryrki vill vinna nokkrar klukkustundir getur hann komið út í mínus þegar Tryggingastofnun hefur krækt í sitt. Það er ýmislegt sem þarf að laga og nú er tími til að koma með hugmyndir að úrbótum.


Enn af Icesave og Evrópuvæðingu

Fólk hrannast inn á kaffistofuna til mín til að lýsa yfir áhyggjum sínum. Ef Alþingi og forseti samþykkja Icesave vilja flestir flýja land... nema öryrkjar, sem eru eiginlega dæmdir til kyrrsetu og taka á sig skuldirnar fyrir þessi 10% þjóðarinnar sem fór offari í góðærinu.

Þeir sem bera mestu ábyrgð á ástandinu eru löngu farnir með ránsfenginn. Eftir hrunið byrjaði þetta fólk strax að kreista síðustu dropana úr hagkerfinu með því að segjast eiga svo bátt að hafa tapað öllum þessum milljörðum, þau ættu skilið að fá meira.

Hvað með alla þá sem hafa ekki einu sinni séð milljón inni á heimabankanum? Hvar er niðurfellingin hjá þeim sem eiga ekki mat út mánuðinn?

Icesave samningurinn getur ekki verið samþykktur með viðbótum sem eru ekki í upprunalega samningnum. Fyrst er að sjá hvort bretar og hollendingar sætti sig við breytingartillögurnar áður en við getum samþykkt annan samning sem verður afleiðing af Icesave. Vitlaust orðalag og allt er búið.

Það var skrifað undir í júní án þess að lesa yfir öll gögnin fyrst og án þess að láta okkur vita. Alls staðar er kastað til höndunum til að flýta fyrir ferlinu sem mun leiða okkur í glötun ef við stoppum þetta ekki. Evrópuríkin þurfa á landinu okkar að halda, ekki öfugt og það liggur á að styrkja krónuna.

Nei og aftur NEI - hver og einn á að sjá um að greiða sínar eigin skuldir - þú getur haft áhrif með því að smella þér inn á www.kjosa.is 


Icesave og ESB - Hvað með fólkið í landinu?

Kona mætti á kaffistofuna og henni var heitt í hamsi. Hafði miklar áhyggjur af því að fólkið sem kom okkur í þessi vandræði væri fólkið sem væri treyst til að leysa úr málunum. Siðleysið væri enn allsráðandi og almennir borgarar yrðu að stoppa það áður en það yrði um seinan.

Hér birtast hugsanir hennar

"Ég er með spurningu til Jóhönnu og Steingríms!

Þessi stjórnarsáttmáli. Hvar er aðgerðarpakkinn varðandi skjaldborg um heimilin í forgangsröðuninni? Hvar í röðinni er atvinnulífið? Það snýst allt um ESB og þjóðin er þegar farin að finna þrengingar og afleiðingar sem því fylgja. En hvað ef meirihlutinn vill ekki fara inn í ESB? Það var samþykkt að fara í aðildarviðræður til að sjá hvort tilboðið frá ESB gagnast þjóðinni eða ekki. Það var ekki samþykkt að ganga inn í ESB. Það þarf að skoða betur hvaða gagn ESB og Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn getur haft af okkur.

Út með þessa umsókn – setjið heimilin og atvinnulífið í forgang. Fólkið í landinu á að vera nr. 1, 2 og 3. Síðan má athuga með ESB, ef vilji er fyrir hendi. ESB er ekki að fara að bjarga heimilunum eða atvinnulífinu á Íslandi.

Þvílík hjálp að láta SJÓVÁ fá 16 – 17 milljarða. Hvaða hagsmunum þurftu Jóhanna og Steingrímur að gæta þar? Þetta er engin venjuleg upphæð sem fer þarna beint í hendur þeirra manna sem komu fyrirtækinu í vandræði. Það sama á við um bankana. Núverandi ríkisstjórn er flækt í þessa peningavitleysu og hún situr á röngum forsendum. Kosningaloforðin hljómuðu upp á skjaldborg um heimilin og allt uppi á borðum svo eitthvað sé nefnt. Hvað með VG með sín loforð um að fara ekki í ESB? Þeir ættu að sjá sóma sinn í að segja sig frá vegna vanhæfis frekar en að láta reka sig.

Fjármálaeftirlitið brást í allri sinni mynd og það á að refsa þeim. Hvernig er hægt að sofa svona á verðinum? Þetta er ekkert venjulegt. Það þarf einnig að skoða þessar skilanefndir með það að markmiði að losna við svörtu sauðina.

Varðandi Icesave þá áttu Bretar og Hollendingar að gera sér grein fyrir því að þeir voru að fjárfesta í einkabanka. Annað væri nú aldeilis sofandaháttur. Hvað þá að breska ríkisstjórnin og sveitafélög þar skuli fjárfesta í þessari vitleysu. Það er ástæða fyrir því að Íslendingar áttu ekki svo mikið í þessum sjóði, en þó nóg. Það þarf að gera bankana, alla eigendur þeirra og stjórnendur ábyrga. Bretar og Hollendingar þurfa að fara ofan í saumana á því hvað gerðist hjá þeim. Það mátti öllum vera ljóst að þetta væru einkabankar, en ekki ríkisbankar. Ef hægt er að gera íslenska ríkið og þjóðina ábyrga fyrir þessu þá hljóta bæði bresk og hollensk ríki að þurfa að bera sína ábyrgð.

Við finnum svo sannarlega til með Bretum og Hollendingum, en ábyrgðin er ekki okkar. Það eru svartir sauðir alls staðar og svo sannarlega líka hér á Íslandi, eins og heimurinn hefur fengið að sjá. Bretar og Hollendingar eiga frekar að hjálpa okkur að ná í rassgatið á þeim sem ber að sæta ábyrgð og refsa þeim. Fyrir mína hönd má gera þá brottræka úr heimalandi sínu, sem hlýtur að vera ein mesta skömm sem hægt er að fá yfir sig.

Ég og margir,ef ekki flestir aðrir Íslendingar vilja að þeir sem gerðu ykkur þetta verði svo sannarlega látnir sæta ábyrgð og það mikillri því þetta er mjög alvarlegt og svo siðlaust að það er erfitt að horfa upp á að þetta hafi átt sér stað. Vissulega eru peningar nauðsynlegir, en það má ekki allt snúast um þá. Það er sárt að sjá hve margir telja sér trú um að hamingjan blómstri aðeins ef peningar eru til staðar.

Sú krafa um að Íslendingar allir borgi þetta þá er það ekki rétt lagalega og siðferðislega séð. Það get ég sagt, frá mínu hjarta og vonandi eru fleiri sammála mér um að guð minn góður, ég finn svo sannarlega til með ykkur og mér þykir svo sárt að þið skylduð hafa orðið fyrir þessu og hvað þá að það skyldu vera Íslendingar sem komu ykkur í þessa erfiðu stöðu, en hvað voruð þið að hugsa? Vitandi að þetta voru einkabankar og því fylgir mikil áhætta sem því miður allt of margir tóku og mistókst greinilega. En almennir borgarar á Íslandi báðu ykkur ekki um að gera þetta og þessar fjárfestingar ykkar voru hvergi gerðar með fyrirvara um að íslenska þjóðin yrði ábyrg ef illa færi. Það er ekki það að við viljum ekki bæta ykkur eitthvað af tjóninu ef við getum, því það voru jú Íslendingar sem komu ykkur í þessa stöðu og skömm sé þeim sem gerðu ykkur það.

Við eigum ekki peninga svo við spyrjum, hvernig getum við hjálpað ykkur öðruvísi. Því auðvitað hlýtur öðrum Íslendingum að blæða fyrir þá skömm sem hluti af þjóðinni skellti yfir okkur. Við erum dugleg þjóð og viljum endilega gera það sem okkur er fært að gera. Hvernig og í hvaða formi við greiðum þarf að finna út. En það er ekki rétt að knésetja okkur sem berum enga sök á því sem gerðist.

Skaðinn er skeður! Hvar voru stjórnvöld og eftirlit í þessum löndum með augun á meðan þetta var að gerast? Eða er það kannski þannig að enginn vill bera ábyrgð á þessu og gera 300 þúsund manna þjóð ábyrga fyrir sinn sofandahátt? Taka eina litla þjóð fyrir sem er dugleg og ábyrg gjörða sinna og reyna að höfða til samvisku hennar.

Allar þessar aðgerðir, skattahækkanir, lækkun launa, matvöruhækkanir... en engin hjálp fyrir heimilin eða atvinnulífið. Það er enginn stuðningur við lög og reglu í landinu. Enginn er að fylgjast með þeirri vá sem getur flogið yfir landið okkar. Sænski utanríkisráðherrann er búinn að segja að hann getur ekki beðið eftir að geta farið að leika sér með vatnsorkuna okkar og spænski sjávarútvegsráðherrann bíður eftir að geta veitt íslenska fiskinn.

Af hverju fær maður það á tilfinninguna að það sér verið að fara á bakvið fólkið í landinu. Það skyldi þó aldrei vera að Jóhanna og Steingrímur séu að sníða þetta allt fyrir ESB og þora ekki að segja okkur það af ótta við byltingu.

Er þetta það sem við viljum? Nei segi ég og vonandi fleiri með mér. Íslendingar eiga að fara fram á að næsta skref verði þjóðaratkvæðagreiðsla um þetta allt. Icesave og hvort við viljum ganga í ESB.

Hér er mín skoðun á því:

Að hafna Icesave getur ekki verið verra en að samþykkja. Við höfum engu að tapa en allt til að vinna.

Eru Íslendingar tilbúnir að láta af sjálfstæði sínu? Viljum við vinna fyrir ESB en ekki okkur sjálf? Við erum gott fólk og dugleg þjóð og aðrir sjá hag í okkur.

Ísland gæti rifið ESB úr þeirri þungu stöðu sem það er í dag.

1.       Það hefur aldrei verið jafn mikið atvinnuleysi eins og nú innan ESB

2.       Það er mikill samdráttur í peningamálum innan ESB og menn spá því að allt fari niður næstu 9 árin áður en hagvöxtur fer upp aftur.

3.       Sjávarútvegurinn er hruninn hjá ESB og það er svo sannarlega ekki eftirsóknarvert fyrir okkur.

Við höfum öllu að tapa með því að ganga inn í ESB og þeir hafa allan hag af að eignast okkur."


Hvað með fólkið í landinu?

Á kaffistofunni heyrast sterkar skoðanir. Á þessum tímum á fólk ekki að vera hrætt við að viðra hugsanir sínar. Því hef ég, með góðfúslegu leyfi viðkomandi ákveðið að birta einræðu samborgara sem hefur áhyggjur af ástandinu í landinu.

„Töf á endurreisn Íslands með efnahagsmálin ef Ice-Save verður ekki samþykkt? Hvaða endurreisn? Það hefur engin endurreisn verið hér á efnahagslífinu. Það skiptir engu máli hvort við getum borgað, okkur íslendingum ber engin skylda til að borga lagalega séð. Fyrir utan ríkisábyrgð sem er einhver prósenta af þessu. Þó svo að fjármálaráðherra segir svo þá er hann ekki marktækur. Það þarf bara að líta á menntun hans til að sjá að hann er ekki hæfur. Orðið fjármálaráðherra þýðir maður með það mikla menntun og reynslu á fjármálasviði að hann getur ráðlag fyrir heila þjóð. Hvað henni er fyrir bestu. Þetta er ekki okkur íslendingum fyrir bestu – ánauð næstu áratugi ef ekki hundrað. Þau segjast vera að koma erfiðustu málunum frá. Hvaða mál? Hvað með þjóðina?

Fólkið? – nei
Atvinnan? – nei
Lífskjör fólks? – nei
Skuldir heimilanna? – nei

ESB – að ganga í ESB – já það er allt búið að snúast um það.

Hvað með Ice-Save? Allt snýst um að þröngva þjóðinni til að borga skuldir annarra. Jóhanna og Steingrímur haga sér eins og örgustu sökudólgar í þessu máli. Ef þau eru einhversstaðar þátttakendur í þessari vitleysu í fortíðinni eiga þau að sjá sóma sinn í að fara. Þau eru ekki að vinna að bættum hag fólksins í landinu.“

Þess ber að geta að Steingrímur er með B.Sc.-próf í jarðfræði og próf í kennslu- og uppeldisfræði. Jóhanna, sem sat í félagsmálaráðuneytinu allan þingferilinn áður en hún settist í forsætisráðuneytið, virðist hafa gleymt fólkinu í landinu. Hvernig má það vera, loksins þegar hennar tími kom?


Um bloggið

Kaffistofuumræðan

Höfundur

Kaffistofuumræðan
Kaffistofuumræðan
Kaffihjal af ýmsu tagi
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband